Hagkvæmar framkvæmdir í Hvítársíðu

Borunarframkvæmdir við Kirkjuból í Hvítársíðu.
Borunarframkvæmdir við Kirkjuból í Hvítársíðu.

Alvarr ehf lauk nýlega við að bora 245 metra djúpa holu fyrir Ragnar Sigurðsson á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Töluvert magn af rúmlega 30°C heitu vatni fékkst úr holunni og næst verður ráðist í að smíða mun öflugri varmadælu en þá sem Alvarr smíðaði sumarið 2011.

Það er ánægjulegt að geta þess að varmadælan frá 2011 hefur framleitt heitt vatn á svo hagstæðu verði að ódýrustu hitaveitur landsins eru varla samkeppnisfærar við það. Varmastuðullinn er nálægt 6, sem þýðir að deila má með 6 í raforkuverðið. Segja má að viðhald og eftirlitskostnaður hafi verið á við núllpunkt hingað til, enda var vandað til við val á íhlutum og við smíði varmadælunnar. Borinn er nú kominn í Fljótstungu í Hvítársíðu þar sem næsta verkefni bíður.

 

Hagkvæmar framkvæmdir í Hvítársíðu

Alvarr ehf hefur sölu á Aermec loft-vatns varmadælum

Aermec loft-vatns varmadælur
Aermec loft-vatns varmadælur.

Alvarr ehf hefur tekur að sér sölu á Aermec loft-vatns varmadælum.

Aermec er gamalgróinn framleiðandi á loft-vatns varmadælum en NRK serian þeirra er hönnuð með stærri byggingar og norðlægar slóðir í huga. Vélarnar eru byggðar upp með þeim hætti að 2 til 4 Copeland pressum er raðað saman á tvær aðskildar kælirásir og vinna allar einingarnar saman þegar álag er mikið, en detta svo út ein af annari þegar álag minnkar.

Við höfum yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af loftvarmadælum, en þessar vélar myndum við staðsetja 10 til 20 metra frá húsvegg og byggja vandað vindskýli yfir vélina þar. Áætla má að orkusparnaður þessara véla liggi á bilinu 60 til 65% miðað við beina rafhitun, en það er háð staðsetningu á landinu og framrásarhita vatnsins.

Samstarfsaðili okkar í Svíþjóð er umboðsaðili fyrir Aermec á norðurlöndunum. Meðfylgjandi er bæklingur fyrir áhugasama, en upplýsingar um verð og fleira gefur Friðfinnur K. Daníelsson í síma 894 1624 eða á alvarr@alvarr.is.

Bæklingur frá Aermic

Alvarr ehf hefur sölu á Aermec loft-vatns varmadælum

Vel gengur í Vík

Vík í Mýrdal
Vík í Mýrdal.

Ekki verður annað sagt en varmadælan við sundlaugina í Vík geri það gott. Vélin var upphaflega gangsett þann 5 febrúar 2015, en 20. apríl 2015 byrjuðum við að skrá uppsafnaðan sparnað. Við vitum að talningin er hárrétt en við u.þ.b. 524 þús kWh markið stoppar talningin og þarf þá að núllstilla teljarann og byrja upp á nýtt.

Þessi talningarbúnaður verður útfærður með öðrum hætti í næstu varmadælu, en við höfum ýmislegt lært með smíði þessarar dælu og annara véla.

Eftir sem áður höfum við fylgst náið með og er gaman að segja frá því, að í dag nam uppsafnaður sparnaður tímabilsins samtals 1.623.105 kWh.

Að teknu tilliti til meðalgildis varmastuðuls má einnig setja fyrirliggjandi upplýsingar fram með eftirfarandi hætti:

Framleidd varmaorka, þ.e. inn á hitunarkerfi skóla og sundlaugar 2.238.765 kWh (100%)
Aðkeypt raforka á varmadælu og borholudælu, samtals 615.660 kWh (27,5%)
Orkusparnaður (orka sem sótt er í 5,9°C borholuvatnið) 1.623.105 kWh (72,5%)
Vel gengur í Vík

Vatns- og varmadælukerfi

Það sem við byrjuðum að þreifa okkur áfram með fyrir rúmum 15 árum er nú orðin algeng lausn og æ fleiri hugsa sér til hreyfings í þeirri viðleitni að ná niður kyndikostnaði.

Hér fyrir neðan má sjá einfalda grunnmynd af aðferð sem er sérstaklega hugsuð fyrir þá sem skortir gott neysluvatn.

Vatns- og varmadaelukerfi
Vatns- og varmadaelukerfi.

Við hjálpum til við alla þætti verkefna af þessu tagi, þar með talið:

  • Undirbúningsvinnu og hagkvæmniathuganir.
  • Staðarval borholu.
  • Boranir og mælingar á vatnsmagni og efnainnihaldi.
  • Hönnun og smíði varmadælu – eða innflutning, eftir atvikum.
  • Aðstoð við tengingar og gangsetningu.

Hafið samband og ræðum lausnir.

 

Vatns- og varmadælukerfi

Heat Pump in Vik

Although clean water from geothermal wells accounts for approximately 90% of our house heating demand, the remaining 10% rely on electricity although it´s a lot more expensive.

Vík
Vík in Myrdalur, South-Iceland.

One of the communities where geothermal water is hard to find. The picturesque village of Vik, located at the southern coast of Iceland.

Together with a team of companies and individuals we have recently built and installed a variable capacity heat pump for the school & swimming pool buildings in Vik, resulting in approximately 75% energy savings.

For those interested, please click the link below for real time information.

Please log in here
User name: Alvarr
Password: Skoli.vik

Team members involved in the project:

Our contribution: Project appraisal, drilling & well testing. Heat Pump design and installation.
Sölvi Traustason: Heat Pump chassis, accumulator tank & other stainless steel structures.
www.kaeling.is Heat Pump assembly.
www.samey.is Electrical items, PLC & communication.
www.vsb.is “In house” heating system design and project management.
Heat Pump in Vik

Samantekt um rannsóknarboranir í Grímsey 2007 til 2008

Sem kunnugt er hefur jarðhitaleitinni í Grímsey verið hætt að sinni, en eftir er að útskýra hvað verið var að bolloka allan tímann og hverju það skilaði. Niðurstöðunum er hér með komið á framfæri við heimamenn og aðra sem málið varðar.

Áður en borun hófst hafði Kristján Sæmundsson jarðfræðingur skoðað aðstæður og lagt á ráðin með staðsetningu borholu. Borstæði var valið fyrir ofan gamla fjárhúsið í Efri Sandvík, og ætlunin að stefna bornum í sprungu sem talin var liggja frá Almannagjá í norðri og suðvestur yfir eyjuna í stefnu á höfnina. Staðsetning og halli var ennfremur við það miðaður að hitta í þessa sprungu á 400 til 500 m dýpi, og fá þannig upplýsingar um hita og vatnsgæfni og fleira sem máli skipti.

Fyrsti áfanginn var boraður með lofthamri og 125 mm krónu og gekk fljótt og vel. Vart varð við nokkrar ferskvatnsæðar í efstu lögum jarðlagastaflans en fyrir neðan 125 m fór að bera á seltu og auknum vatns og sjóflaumi. Á 150 metra dýpi datt borkrónan skyndilega niður í “tómarúm” og upp spýttist Grímseyjarsundið salt og freyðandi, og 17 °C volgt. Þegar svona stórar vatnsæðar opnast veldur það yfirleitt erfiðleikum á þann hátt að lofthamrarnir verða máttlausir og ráða þá ekki við að mylja bergið. Svo fór einnig í þetta skipti en gerðar voru nokkrar tilraunir til að þétta botnæðina ásamt smærri ferskvatnsæðunum ofar í holunni með því að dæla steypugraut niður í þær. Þannig tókst að stoppa mesta ferksvatnslekann en erfitt reyndist að þétta botnæðina því svo virtist sem sjórinn væri á hreyfingu og skolaði öllu steypusulli í burtu áður en það náði að harðna.

Að svo komnu máli var skipt um borgræjur og haldið áfram niður í 583 m með vatnshamri og 64 mm krónu. Á meðfylgjandi mynd og línuritum má betur glöggva sig á framvindu mála en myndirnar tala sínu máli best sjálfar. Að verki loknu verður ekki séð að Grey-19 hafi hitt í sprunguna fyrirheitnu, því bergið reyndist afar þétt neðan 180 m. Á 400 m dýpi varð vart við lítilsháttar leka sem vætlar líklegast úr þunnu láréttu millilagi. Nú vaknaði sú spurning hvort gímaldið á 150 til 165 m hafi etv. ekki verið lárétt millilag, heldur sprungan sem holan hafði þá farið í gegnum of snemma og ofarlega.

Ef þetta var reyndin þýddi það að sprungan lá lítið eitt austar en talið var, en það hafði mikið upplýsingagildi út af fyrir sig. Til að taka af allan vafa um þetta var bornum hnikað um örfáa metra og Grey-20 boruð lóðrétt niður. Skemmst er frá því að segja að Grey-20 lenti í sama leka laginu og Grey-19 sem staðfestir að jarðlagið er lárétt en ekki upp á röð (sprunga).

Boranir í Grímsey - skýringarmynd
Rannsóknarboranir í Grímsey – skýringarmynd.

Rétt er að taka fram að skýringarmyndin á að sýna hver var upphafleg áætlun (sprungan fjær) og spurninguna sem við stóðum frammi fyrir eftir borun Grey-19 (sprungan nær ?). Hvorug tilgátan reyndist hinsvegar rétt vera. Að verklokum má segja að tilvist jarðhitans undir Grímsey sé rækilega sönnuð, ella væri ekki 85 °C hiti í holubotni. Enginn veit hvaða hæðum hitastig jarðhitakerfisins nær í raun og veru, en með sama áframhaldi gæti hitinn verið um eða yfir 100 °C á 700 m dýpi. Hitt er svo öllu lakara að ekki fékkst staðfest að vatnsleiðandi sprunga sé til staðar þar sem hún var talin vera og því ekkert fast í hendi með að hitta í heitan sjó þótt borað sé á ný.

[flexiblemap center=”66.542007, -18.001164″ width=”100%” height=”400px” zoom=”8″ title=”Grímsey” description=”Rannsóknarboranir 2007-2008.”]

 

Samantekt um rannsóknarboranir í Grímsey 2007 til 2008