Fjarvarmaveitan í Lundi hvílir að umtalsverðum hluta á 2 x 18 MW varmadælum sem sækja orkuna í 4 borholur. Holurnar voru boraðar á sínum tíma í þykkan setlagabunka á svæði sem heitir Värpinge í vesturjaðri Lundar. Hver hola gefur um 110 l/sek af volgum vökva, en varmadælurnar vinna orkuna úr þessum vökva og skila honum aftur nokkru kaldari niður í jarðlögin í u.þ.b. 3 km fjarlægð frá vinnslusvæðinu. Hver hola framleiðir með þessum hætti rúmlega 7 MW sem að viðbættu pressuafli verða að 9 MW í formi varmaafls út úr varmadælunni.
Þetta kerfi er búið að mala gull síðan það var tekið í notkun um miðjan áttunda áratuginn, en á síðustu árum virðist efnainnihald vökvans í einni holunni hafa verið að breytast og vökvinn jafnframt að kólna. Orkuveitan í Lundi leitaði til Leifs Bjelm og hans manna innan deildarinnar Teknisk Geologi við LTH (Lunds Tekniska Högskola) um skýringar, en sú deild er vel í stakk búinn til hvers kynns rannsókna og ráðgjafar á þessu sviði.
Eftir nokkra eftirgrennslan og mælingar TG manna kom í ljós að stórt gat hafði myndast á fóðringu sem nær frá yfirborði og niður á um 600 m dýpi, og inn um þetta gat fossaði ferskvatn úr efri jarðlögum holunnar.
Við svo búið mátti ekki standa; gatinu varð að loka til að hindra blöndun ferskvatns við djúpvatnið og tryggja stöðugleika holuveggjana þar sem gatið hafði myndast. Var nú leitað í smiðju Friðfinns K. Daníelssonar verkfræðings um lausn á verkefninu, en fyrsta hugmyndin að steypa í skemmda kaflann og bora út á ný var fljótlega slegin af.
Að tillögu Friðfinns varð sú leið fyrir valinu að koma 14,4 m löngu stálröri fyrir innan í borholufóðringunni og brúa yfir skemmdina með því móti. Gúmmísteypa Þ. Lárussonar var fengin til að steypa gúmmíþéttingar á rörendana og Daníel Sigurðsson hjá EngDesign hannaði vökvatjakk sem notaður var til að þenja rörendana út í fóðringuna. Vélsmiðjan Héðinn smíðaði búnaðinn fyrir okkur og var allur pakkinn sendur utan í byrjun júlí í sumar.
Áður en ráðist var í smíðina leituðum við sambærilegra lausna þ.e. að þenja út svart stálrör en fundum ekki. Hins vegar fannst í Ástralíu búnaður og verkþekking til að þenja út þunnveggja rör úr ryðfríu, en sú aðferð var fljótlega lögð til hliðar. Við þurftum að brúa um 11 m kafla sem við vildum ná í einni lengju (án samskeyta), en auk þess komu upp styrkleikasjónarmið sem ryðfría rörið stóðst ekki.
Ánægjulegt er frá því að segja að verkefnið tókst eins og best varð á kosið. Innra rörið sem var um 300 mm í þvermál komst vandkvæðalaust á sinn stað innan í fóðringunni þrátt fyrir takmarkað pláss, en minnsta innanmál borholufóðringarinnar var aðeins 315 mm. Vel gekk að þenja rörendana út og reyndist búnaður okkar Daníels með miklum ágætum, en okkur er ekki kunnugt um að sú aðferð sem við beittum hafi áður verið notuð.