Að undirlagi Orkuveitu Reykjavíkur réðist undirritaður ásamt Daníel Sigurðssyni hjá EngDesign í hönnun og smíði á nýjum matara fyrir Coil Tubing búnað Alvars ehf. En þess má geta að fyrir nokkrum árum hannaði og smíðaði snillingurinn Daníel og hans menn einnig rörtromluna sem sjá má á myndinni. Búnaðurinn reyndist framar öllum vonun þegar hann var prófaður við „ræsingu“ á nokkrum háhitaholum OR í Hellisheiði veturinn 2009 til 2010.
Verkefnið varð allt hið ánægjulegasta, ekki síst fyrir auðfundinn áhuga allra sem að því komu. Áhugi Orkuveitu Reykjavíkur er augljós þegar haft er í huga að borhola sem kostar 350 mkr. er lítils virði ef hún hefur sig ekki í blástur af sjálfsdáðum. Fá úrræði hafa dugað til að leysa þetta vandamál, og sterkar líkur benda til að þær lausnir sem notast hefur verið við geti stórskemmt eða jafnvel eyðilagt þessi dýru mannvirki. Nánar verður fjallað um tæknilega hlið þessa máls hér á síðunni innan tíðar.
Um Unnar og hans menn hjá Myllunni á Egilsstöðum og Caterpillar piltana hjá Kletti verður að segja að svona menn þarf að virkja mikið betur en gert er. Það allra sísta sem þessi þjóð þarf á að halda um þessar mundir er að tapa verksviti af þessari gráðu út af vellinum. Þetta segir sá sem hefur víða farið og séð úrræðalausa menn gefast upp við að skipta um dekk á gömlum Ferguson!
Gaman er að segja frá viðbrögðum ET manna og Suðurverks þegar leitað var til þeirra með dráttarbíl og gröfu. Reikningurinn frá ET fyrir glerfína Scaniu sem þeir lánuðu vikum saman var álíka og fyrir hjólbörur á tækjaleigu, en fyrir Cat vélina frá Suðurverki var ekki rukkuð króna. „Þetta er nú bara smáframlag til nýsköpunar og framfara“ voru viðbrögð Dofra Eysteinssonar þegar við ræddum fjármálin nokkru síðar.
Þá er einnig tímabært að greina frá því að þetta frumkvöðlabrölt okkar er að draga dilk á eftir sér. Skömmu fyrir jólin sendum við Daníel teikningar að búnaði sem öflugt fyrirtæki í Svíþjóð leitaði til okkar með. Það verkefni gengur tæpast til baka úr þessu, enda mikilvægt að hafa í önnur hús að venda á meðan heimamarkaðurinn er jafn grátt leikinn og raun ber vitni.
Með verksvitið og hugarfarið, sem hér hefur verið tæpt á, ættu Íslendingar að geta komist framarlega í röð þeirra sem hanna og smíða tæki og tól t.d. fyrir jarðhitaiðnaðinn. Við hlökkum til ársins sem brátt gengur í garð, og óskum landsmönnum öllum gæfu og gengis á nýju ári.
Friðfinnur K. Daníelsson