Samantekt um rannsóknarboranir í Grímsey 2007 til 2008

Sem kunnugt er hefur jarðhitaleitinni í Grímsey verið hætt að sinni, en eftir er að útskýra hvað verið var að bolloka allan tímann og hverju það skilaði. Niðurstöðunum er hér með komið á framfæri við heimamenn og aðra sem málið varðar.

Áður en borun hófst hafði Kristján Sæmundsson jarðfræðingur skoðað aðstæður og lagt á ráðin með staðsetningu borholu. Borstæði var valið fyrir ofan gamla fjárhúsið í Efri Sandvík, og ætlunin að stefna bornum í sprungu sem talin var liggja frá Almannagjá í norðri og suðvestur yfir eyjuna í stefnu á höfnina. Staðsetning og halli var ennfremur við það miðaður að hitta í þessa sprungu á 400 til 500 m dýpi, og fá þannig upplýsingar um hita og vatnsgæfni og fleira sem máli skipti.

Fyrsti áfanginn var boraður með lofthamri og 125 mm krónu og gekk fljótt og vel. Vart varð við nokkrar ferskvatnsæðar í efstu lögum jarðlagastaflans en fyrir neðan 125 m fór að bera á seltu og auknum vatns og sjóflaumi. Á 150 metra dýpi datt borkrónan skyndilega niður í “tómarúm” og upp spýttist Grímseyjarsundið salt og freyðandi, og 17 °C volgt. Þegar svona stórar vatnsæðar opnast veldur það yfirleitt erfiðleikum á þann hátt að lofthamrarnir verða máttlausir og ráða þá ekki við að mylja bergið. Svo fór einnig í þetta skipti en gerðar voru nokkrar tilraunir til að þétta botnæðina ásamt smærri ferskvatnsæðunum ofar í holunni með því að dæla steypugraut niður í þær. Þannig tókst að stoppa mesta ferksvatnslekann en erfitt reyndist að þétta botnæðina því svo virtist sem sjórinn væri á hreyfingu og skolaði öllu steypusulli í burtu áður en það náði að harðna.

Að svo komnu máli var skipt um borgræjur og haldið áfram niður í 583 m með vatnshamri og 64 mm krónu. Á meðfylgjandi mynd og línuritum má betur glöggva sig á framvindu mála en myndirnar tala sínu máli best sjálfar. Að verki loknu verður ekki séð að Grey-19 hafi hitt í sprunguna fyrirheitnu, því bergið reyndist afar þétt neðan 180 m. Á 400 m dýpi varð vart við lítilsháttar leka sem vætlar líklegast úr þunnu láréttu millilagi. Nú vaknaði sú spurning hvort gímaldið á 150 til 165 m hafi etv. ekki verið lárétt millilag, heldur sprungan sem holan hafði þá farið í gegnum of snemma og ofarlega.

Ef þetta var reyndin þýddi það að sprungan lá lítið eitt austar en talið var, en það hafði mikið upplýsingagildi út af fyrir sig. Til að taka af allan vafa um þetta var bornum hnikað um örfáa metra og Grey-20 boruð lóðrétt niður. Skemmst er frá því að segja að Grey-20 lenti í sama leka laginu og Grey-19 sem staðfestir að jarðlagið er lárétt en ekki upp á röð (sprunga).

Boranir í Grímsey - skýringarmynd
Rannsóknarboranir í Grímsey – skýringarmynd.

Rétt er að taka fram að skýringarmyndin á að sýna hver var upphafleg áætlun (sprungan fjær) og spurninguna sem við stóðum frammi fyrir eftir borun Grey-19 (sprungan nær ?). Hvorug tilgátan reyndist hinsvegar rétt vera. Að verklokum má segja að tilvist jarðhitans undir Grímsey sé rækilega sönnuð, ella væri ekki 85 °C hiti í holubotni. Enginn veit hvaða hæðum hitastig jarðhitakerfisins nær í raun og veru, en með sama áframhaldi gæti hitinn verið um eða yfir 100 °C á 700 m dýpi. Hitt er svo öllu lakara að ekki fékkst staðfest að vatnsleiðandi sprunga sé til staðar þar sem hún var talin vera og því ekkert fast í hendi með að hitta í heitan sjó þótt borað sé á ný.

[flexiblemap center=”66.542007, -18.001164″ width=”100%” height=”400px” zoom=”8″ title=”Grímsey” description=”Rannsóknarboranir 2007-2008.”]

 

Samantekt um rannsóknarboranir í Grímsey 2007 til 2008